Vodafone, Síminn og Nova ehf., dótturfélag Novators, hafa gert tilboð í tíðniheimildir fyrir þriðju kynslóð farsíma, segir í fréttatilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun. Tilboðin voru opnuð fyrr í dag.

Umsóknir eru metnar í stigum og er stigafjöldi umsóknar reiknaður fyrir hvert svæði á þann veg að prósentutala útbreiðslu við hvern áfanga fær mismunandi vægi þannig að því fyrr sem útbreiðslu er náð fást fleiri stig, segir í tilkynningunni.

Nova fékk flest stig, eða 754,7 stig, Síminn fékk 726,9 stig og Vodafone 648,3 stig. Uppgefnar tölur um útbreiðslu og uppbyggingarhraða voru lesnar upp við opnun tilboða ásamt útreiknuðum stigum fyrir hvert tilboð.

Lágmarkskrafa til hvers tíðnirétthafa er að IMT-2000 þjónusta nái til 60% íbúa á einstaka landsvæðum.