Stjórn Fjarskipta hf. (Vodafone) hefur samþykkt að komið verði á fót tilnefningarnefnd og starfsreglum fyrir hana samkvæmt tilkynningu. Er félagið fyrst skráðra félaga á hlutabréfamarkaði hér á landi til að skipa slíka nefnd.

Nefndinni er ætlað að stuðla að aukinni fagmennsku, gagnsæi og skilvirkni við myndun stjórnar Fjarskipta hverju sinni. Skipan nefndarinnar er í samræmi við leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja frá árinu 2012 og leiðbeiningar OECD frá árinu 1999.

Hlutverk nefndarinnar er að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félaginu fyrir aðalfund og tekur nefndin mið af heildarhagsmunum hluthafa.

Stjórn félagsins hefur samþykkt tillögu um að þrír aðilar skipi nefndina og meirihluti hennar sé óháður Fjarskiptum hf. og daglegum stjórnendum félagsins. Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu háskóla og vísinda í Menntamálaráðuneytinu og Ragnheiður Dagsdóttir, meðeigandi og sérfræðingur í ráðningum hjá Capacent, taka sæti í nefndinni auk Heiðars Guðjónssonar, stjórnarformanns félagsins.

„Stjórn Fjarskipta er einhuga um að stuðla að ábyrgum stjórnarháttum við rekstur fyrirtækisins og tileinka sér viðmið sem hafa gefist vel á alþjóðavettvangi og eiga fullt erindi hér á landi. Við erum þess fullviss að skipan tilnefningarnefndar sé jákvætt skref fyrir Vodafone og ég hlakka til að starfa með nefndarmönnum,“ segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður.