Vodafone á Íslandi hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til að vinna að undirbúningi skráningar fjarskiptafyrirtækisins Vodafone í Kauphöllina fyrir áramót. Í tengslum við fyrirhugaða skráningu er gert ráð fyrir að fram fari almennt hlutafjárútboð þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að skrá sig fyrir hlutum í félaginu. Markmiðið með skráningunni er að tryggja almenna og góða dreifingu á eignarhaldi félagsins og gefa fjárfestum kost á að fjárfesta í öflugu félagi á sviði fjarskipta.

Fram kemur í tilkynningu frá Vodafone, að samhliða þessu hafi verið samið við Íslandsbanka um að hann annist sölu á þeim bréfum Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) sem seld verða í útboðinu, en sjóðurinn er aðaleigandi Vodafone í dag.

Þá segir í tilkynningunni að leitað hafi verið tilboða um ráðgjöfina fyrir skráningu á hlutabréfamarkað.

Þar er jafnframt haft eftir Ómari Svavarssyni, forstjóra Vodafone, að fyrirtækið sé vel í stakk búið til skráningar á hlutabréfamarkað og þetta réttan tíma til að fá fleiri fjárfesta að fyrirtækinu.

Vodafone var áður hluti af Teymi ásamt Skýrr, nú Advania, og fleiri fyrirtækjum. Teymi var eitt þeirra félaga sem voru í eignahaldsfélaginu Vestia, sem var í eigu Landsbankans, og hélt um eignarhluti í félögum sem bankinn hafði tekið yfir. Eftir að Framtakssjóðurinn keypti Vestia af Landsbankanum í ágúst árið 2010 var Teymi í kjölfarið skipt upp í fjarskiptahluta og upplýsingatæknihuta.

Ómar Svarsson - Forstjóri Vodafone
Ómar Svarsson - Forstjóri Vodafone
© BIG (VB MYND/BIG)
Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone.