Vodafone hefur birt yfirlýsingu vegna fréttar Viðskiptablaðsins um að Síminn hefði stofnað fjölmiðlafyrirtæki í Lúxemborg vegna regluumhverfis á Íslandi, sem Síminn segir að hefti framleiðslu á sjónvarpsefni. Vodafone lýsir yfir furðu að Síminn ætli sér að sniðganga íslenskt regluverk með stofnun aflandsfélags í Lúxemborg.

Vodafone bendir á að Síminn hafi í haust fengið lögbann sem bannaði Vodafone að flytja svokallað ólínulegt efni Skjásins, þ.e. Tímavél Skjásins og Skjá Frelsi, á sjónvarpsdreifikerfi Vodafone; Síminn hefur einnig höfðað dómsmál til að fá lögbannið staðfest. Vodafone segir að sjónarmið sín gagnvart þessu séu þríþætt.

  1. Með að synja Vodafone um dreifingu þessa efnis sé Síminn að vanefna samning um dreifingu sjónvarpsefnis sem er enn í gildi.
  2. Vodafone telur að aðgerðir Símans séu andstæðar 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga. Samkvæmt því ákvæði er fjölmiðlaþjónustuveitanda (hér Skjánum) óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki (hér Síminn/Míla). Markmið reglunnar er að koma í veg fyrir að lóðrétt samþætt fyrirtæki, þ.e. þau sem starfa jafnt í fjarskiptum og efnisframleiðslu eða innkaupum á efni, beini eftirsóknarverðu efni eingöngu inn á eigin fjarskiptanet. Undir þetta falla því ekki fyrirtæki sem ekki eru í lóðrétt samþættri fjarskiptastarfsemi.
  3. Vodafone telur einnig að aðgerðir Símans séu andstæðar banni við misbeitingu á markaðsráðandi stöðu.

Vodafone segir að málið hafi þegar þegar komið til kasta Samkeppniseftirlits, Póst- og fjarskiptastofnunar og Fjölmiðlanefndar, og er nú til rannsóknar hjá tveimur fyrrnefndu stofnununum. Vodafone segir einnig að nýlegt állit Fjölmiðlanefndar segi að ofangreint ákvæði fjölmiðlalagi taki jafnt til ólínulegra sem línulegra sjónvarpsútsendinga.

Vodafone segir að lokum að það sé mikilvægt að öll fyrirtæki á Íslandi sitji við sama borð og spili eftir sömu leikreglum. Vodafone lýsir einnig furðu yfir því að Síminn ætli sér að sniðganga íslenskt regluverk með stofnun aflandsfélags í Lúxemborg.

„Fær Vodafone enda með engu móti séð með hvaða hætti það muni hefta framleiðslu Símans á innlendu sjónvarpsefni og innkaupum á erlendu efni að slíku efni sé dreift, gegn eðlilegu gjaldi, á sem flestum dreifikerfum, neytendum í hag.“