Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hefur hækkað um 0,32% í 4,9 milljarða viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.684,41 stigi. Aðalvísitala skuldabréfa hefur hins vegar lækkað um 0,04% í tæplega 3,4 milljarða viðskiptum og fór hún niður í 1.353,10 stig.

Einu tvö félögin sem lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag voru Marel sem lækkaði um 1,04%, niður í 331,50 krónur og Össur sem lækkaði um 0,43% í mjög óverulegum viðskiptum og standa bréf félagsins nú í 460,00 krónum.

Viðskiptin með bréf Marel námu rúmlega 2,1 milljarði, en félagið keypti 5 milljón hluti í sjálfum sér samkvæmt fréttatilkynningu í Kauphöllinni. Miðað við lokagengið er markaðsvirði þessara hluta rúmlega 1,6 milljarður, en hlutirnir eru ætlaðir sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum Marel.

Fjarskiptafélögin Vodafone og Síminn hækkuðu hins vegar mest í virði í kauphöllinni í dag, Vodafone um 4,27%, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hækkaði félagið þá um 4,88%. Gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone stendur nú í 68,40 krónum eftir 372 milljón króna viðskipti.

Síminn hækkaði hins vegar um 3,0% í næst mestu viðskiptunum á eftir Marel, það er fyrir tæplega 824 milljón krónur. Gengi bréfanna er nú 4,12 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,5% í dag í 4,9 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,1% í dag í 1,6 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 0,9 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,7 milljarða viðskiptum.