Fjarskipti h.f. eða Vodafone á Íslandi hafa hlotið viðurkenningu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti sem fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Í tilkynningu frá Vodafone um viðurkenninguna segir að hún byggir á úttekt á starfsháttum stjórnar og stjórnenda Fjarskipta hf. sem unnin var af KPMG í september 2014. Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar segir að niðurstöður úttektarinnar gefi skýra mynd af stjórnarháttum Fjarskipta hf. og bendi til þess að fyrirtækið geti að mörgu leyti verið öðrum til fyrirmyndar þegar kemur að góðum stjórnarháttum.

Mat sitt byggir Rannsóknarmiðstöðin í meginatriðum á því hvort úttektin gefi til kynna að fyrirtæki fylgi  leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq OMX Iceland hf. gefa út.  Markmiðið er að matsferlið auki trúverðugleika og gagnsæi stjórnarhátta fyrirtækja gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum.