EBIDTA hagnaður Vodafone á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam rétt rúmum milljarði króna en þetta er besta EBIDTA ársfjórðungsniðurstaða í sögu félagsins. Uppgjörið var kynnt í gærmorgun og hefur gengi hlutabréfa Vodafone hækkað nokkuð bæði í dag og í gær.

Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone var að vonum ánægður með uppgjörið en hann segir niðurstöðuna einna helst því að þakka að félagið hefur ráðist í markvissar kostnaðaraðgerðir og tekjustýringu.

Tekjur Vodafone hafa breyst lítið á milli ára en samsetning þeirra hefur tekið þónokkrum breytingum. Þá dragast saman tekjur í farsíma- og fastlínuþjónustu félagsins en vöxtur er í sjónvarpsþjónustu og í öðrum tekjum. Stefán segir að framundan muni félagið einbeita sér að því að auka enn frekar við tekjur.

VB Sjónvarp ræddi við Stefán.