Vodafone (Fjarskipti hf.) hefur stefnt Símanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til greiðslu skaðabóta vegna brota á samkeppnislögum á árunum 2001 til 2007. Brotin fólust í ofrukkun á lúkningargjöldum fyrir hverja talaða mínútu í símtölum sem enduðu í farsímakerfi Símans. Ofgreiðslur Vodafone vegna þessa námu 913 milljónum króna á tímabilinu og krefst félagið þess að fá þá upphæð endurgreidda auk vaxta.

Í tilkynningu frá Vodafone er bent á að í fyrra hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga (nr. 44/2005) og 54. gr. EES-samningsins (sbr. lög nr. 2/1993). Brot Símans hf. fólust m.a. í því að hafa beitt samkeppnisaðila sína ólögmætum verðþrýstingi frá árinu 2001 til 2007. Samkeppniseftirlitið taldi ljóst að Síminn hafi með háttsemi sinni komið í veg fyrir að Vodafone næði fram eðlilegum hagnaði af starfsemi sinni og þannig raskað samkeppni á farsímamarkaði með ólögmætum hætti. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti brot Símans og niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins með úrskurði sínum nr. 1/2012. Vegna brotanna var Síminn hf. sektaður um 390 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að óvissa ríki um niðurstöðu dómsmálsins en verði Síminn dæmdur til greiðslu skaðabóta mun það hafa jákvæð áhrif á fjárhag Vodafone.