Stjórn Vodafone leggur til að fyrirtækið hafi það að stefnu sinni að greiða hluthöfum sem nemur 20-40% af hagnaði hvers árs eftir skatta í arð. Það verður þó ekki gert nú vegna afkomu fyrirtækisins í fyrra, samkvæmt tillögu stjórnar Vodafone um ráðstöfun hagnaðar félagsins.

Hagnaður Vodafone nam 847 milljónum króna í fyrra borið saman við 400 milljónir króna árið 2012. Ef arðgreiðslustefna Vodafone væri í gildi nú gæti arðgreiðsla félagsins numið samkvæmt tillögunum á bilinu 169-339 milljónir króna.

Stjórn Vodafone birti arðgreiðslustefnu félagsins í dag á sama tíma og tillögur fyrir aðalfund félagsins. Fram kemur að við mótun tillagna um arðgreiðslu og kaup félagsins á eigin bréfum skuli stjórn Vodafone taka tillit til markmiða fjárstýringarstefnu félagsins, markaðsaðstæðna og fjárfestingarþarfar félagsins.