Vogabær tapaði 112 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 5 milljóna króna tap árið á undan. Rekstrartekjur félagsins lækkuðu um 80 milljónir króna milli ára en á árinu 2018 námu þær 838 milljónum króna samanborið við 918 milljónir króna árið 2017. Eignir félagsins í lok árs 2018 námu 153,7 milljónum króna miðað við 475 milljónir króna árið á undan.

Eigið fé Vogabæjar var 115,5 milljónir króna í lok árs 2018 samanborið við 227,5 milljónir króna í lok árs 2017. Laun og launatengd gjöld félagsins námu 130 milljónum króna og lækkuðu þau um 5 milljónir milli ára. Stöðugildi hjá Vogabæ í árslok 2018 voru 13 og stóðu þau í stað milli ára.

Vogabær ehf. er með starfsstöð sína við Bitruháls 2 í Reykjavík. Félagið er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga sem er með lögheimili að Ártorgi 1, Sauðárkróki. Framkvæmdastjóri Vogabæjar er Magnús Freyr Jónsson.