*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 13. október 2020 10:23

Vógu upp notkun ferðamanna á eldsneyti

Eldsneytisnotkun á Íslandi jókst í sumar þó ferðamenn hafi staðið undir fjórðungi hennar á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þrátt fyrir mikla fækkun ferðamanna á Íslandi í sumar miðað við síðustu sumur jókst eldneytissala á Íslandi um 8,6% í júlímánuði í ár frá fyrra ári að því er fram kemur í gögnum Hagstofu Íslands.

Samanlagt seldust 31 þúsund rúmmetrar af eldsneyti af dælu til vegasamgangna í júlí 2020 meðan heildarmagnið var 28.500 í júlí 2019. Bensín er komið niður í að vera 40% allrar eldsneytissölu en hlutfall þess var 53% árið 2016.

Um 30% af rúmmáli alls eldsneytis til vegasamgangna hér á landi var selt eftir öðrum leiðum en í gegnum greiðslukort, það er með reiðufé, reikningsviðskiptum, einkadælum fyrirtækja eða öðrum leiðum.

Hlutfall eldsneytis þar sem greitt er fyrir með erlendum greiðslukortum var hins vegar mun lægra í júlí 2020 en í júlí 2019. Undanfarin ár hefur þetta hlutfall verið í kringum 8% á vetrarmánuðum og nær 25% yfir sumarið. Í upphafi Covid-faraldursins hérlendis í apríl féll hlutfall eldsneytis á erlend kort af heildarsölu undir 1% og náði aðeins upp í 8,6% í júlí.

Ef gert er ráð fyrir að sala utan erlendra greiðslukorta hafi verið til íslenskra heimila og fyrirtækja var notkun Íslendinga á eldsneyti 30% hærri í júlí 2020, eða 28.500 rúmmetrar miðað við júlí 2019 þegar það var 21.000 rúmmetrar.