Vogunarsjóðir og fjárfestingarsjóðir víða um heim hafa sankað að sér jafnvirði 60 milljörðum evra, jafnvirði tæpra níu þúsund milljarða íslenskra króna, sem nýta á þegar aðgengi banka og fjármálafyrirtækja á evrusvæðinu að lánsfé lokar og þeir þurfa að selja eignir á brunaútsölu til að afla sér lausafjár. Sjóðirnir hafa aldrei setjið á jafn háum fjárhæðum, samkvæmt samantekt Bloomberg-fréttaveitunnar. Sjóðirnir sérhæfa sig í fjárfestingu á skráðum hluta- og skuldabréfamarkaði og veðja á fall banka og fjármálafyrirtækja.

Í umfjöllun veitunnar segir að talsvert sé um liðið síðan sjóðirnir söfnuðu að sér fénu. Vandinn sé hins vegar sá að fjármálayfirvöld í evruríkjunum, s.s. seðlabanki evrusvæðisins, hafi gripið til aðgerða frá því Mario Draghi tók við bankastjórastólnum í í fyrra sem hafi komið í veg fyrir brunaútsölu. M.a. hafi hann lækkað stýrivexti þrívegis og slakað á kröfum sínum til að gera bönkum og fjármálafyrirtækjum kleift að veðsetja eignir sem áður var ekki leyfilegt að leggja fram sem veð fyrir lánum.

Á meðal sjóðanna eru nokkrir af stærstu fjárfestingar og vogunarsjóðum í heimi. Þar á meðal Appollo Global Management, Oaktree Capital Group og Davidson Kempner Capital Management, sem keypti skuldabréf Glitnis á eftirmarkaði eftir að bankinn fór á hliðina haustið 2008.

Bloomberg segir sjóðina fjármagna kaup sín á eignum með blöndu af eigin fé og lánsfé. Þeir selji síðan eignirnar alla jafna eftir um þrjú til fimm ár.