Bandarískir og breskir fjárfestingasjóðir áttu rúmlega 13% af útgefnu hlutafé tryggingafélaganna þriggja sem skráð eru í Kauphöll Íslands í byrjun mánaðarins. Alls eiga fimm sjóðir í rekstri Miton Group, Eaton Vance og Lansdowne Partners hlutabréf í VÍS, TM og Sjóvá fyrir samtals tæplega 10 milljarða króna.

Stærsti eignarhlutur sjóðanna er í VÍS, eða 16,1%. Þá eiga sjóðirnir 12,2% af útgefnu hlutafé TM og 10,8% í Sjóvá. Mest á breska fjárfestingafyrirtækið Miton Group í gegnum sjóðina CF Miton UK Multi Cap Income og The Diverse Income Trust PLC. Næstmest á bandaríski vogunarsjóðurinn Eaton Vance Management í gegnum sjóðina Global Macro Absolute Return Ad og Global Macro Portfolio, en Eaton Vance var meðal stærri eigenda aflandskrónueigna. Þá á breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners – einn stærsti vogunarsjóður Evrópu – hluti í TM og Sjóvá í gegnum sjóðinn Lansdowne ICAV Lansdowne Euro.

Ódýrar mjólkurkýr

Erlend fjárfestingafyrirtæki hafa aukið fjárfestingar sínar á íslenskum hlutabréfamarkaði síðustu misserin, en stærsti eignarhlutur þeirra er í tryggingafélögunum. Einnig eru þau orðin fyrirferðarmikil í fjarskiptafélögunum (12,5%) og N1 (13,9%), auk þess að eiga tæp 6% í fasteignafélögunum.

„Tryggingafélög eru í eðli sínu mjólkurkýr með nokkuð stöðugt sjóðstreymi og eru því oft vænlegur fjárfestingarkostur. Íslensku félögin hafa vissulega greitt út góðan arð og eru ekki mikil vaxtarfyrirtæki,“ segir Snorri Jakobsson, fjármála- og efnahagsráðgjafi hjá Capacent.

Til að mynda greiddu tryggingafélögin að jafnaði 2,05 krónur á hlut í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016, á meðan Hagar greiddu út 1,70 krónur á hlut og Síminn 0,03 krónur á hlut, svo dæmi séu nefnd.

„Það sem spilar þó stærri þátt í því að erlendir sjóðir séu hlutfallslega meira í tryggingafélögunum heldur en öðrum félögum á markaði – án þess að geta fullyrt um það – er að íslensku tryggingafélögin eru mjög ódýr í samanburði við erlend tryggingafélög, þrátt fyrir mikla hækkun á gengi krónunnar. Það held ég að sé lykilþáttur,“ segir Snorri.

Samkvæmt upplýsingum frá Capacent er VI-hlutfall (hlutfall markaðsverðs og innra virðis) íslensku tryggingafélaganna að meðaltali 1,71, en VI-hlutföll evrópskra tryggingafélaga um  3,04. Þá er VH-hlutfall (hlutfall markaðsverðs og hagnaðar) íslensku félaganna að meðaltali 11,80, en 17,62 hjá evrópsku félögunum.

Vaxtamunur í hlutabréfum?

Eignarhlutur erlendra vogunarsjóða í íslenskum tryggingafélögum er einkar áhugaverður í ljósi þess að um helmingur af eignasöfnum tryggingafélaganna samanstendur af skuldabréfum. Fyrir hrun voru erlendir vogunarsjóðir umsvifamiklir í vaxtamunaviðskiptum hér á landi, þar sem tekin voru lán í lágvaxtamyntum og fjármagnið notað til að kaupa íslensk skuldabréf sem báru háa vexti í alþjóðlegum samanburði. Bindiskylda Seðlabankans á skuldabréfamarkaði hefur hins vegar stöðvað vaxtamunaviðskipti nánast alfarið og stýrt erlendu fjármagnsinnflæði inn á hlutabréfamarkaðinn umfram skuldabréfamarkaðinn.

Skammtímavaxtamunur við útlönd er í dag á bilinu 3% til 5,4%. Áleitnar spurningar vakna um það hvort erlendu sjóðirnir nýti sér vaxtamun með óbeinum hætti með með fjárfestingum í eignasöfnum tryggingafélaganna. Snorri telur það hugsanlega spila inn í þó ekki sé hægt að draga ályktun um það með beinum hætti.

Til að mynda hafa tryggingafélögin verið að draga úr vægi skuldabréfa í eignasöfnum sínum. Þá er hlutdeild hlutabréfa meiri en skuldabréfa í eignasafni TM og hefur vægi verðtryggðra skuldabréfa verið þar þó nokkurt, en erlendir aðilar hafa sýnt verðtryggðum bréfum lítinn áhuga frá 2010.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .