Vogunarsjóðir eru mikilvægir aðilar á olíumarkaði en sumir þeirra skilja ekki hvernig hann virkar að því er Financial Times hefur eftir háttsettum starfsmanni OPEC, samtaka olíuframleiðenda.

Aðalritari OPEC, Mohammad Barkindo, hitti stjórnendur vogunarsjóða í vikunni til þess að byggja upp tengsl við þá sem er merkilegt fyrir þær sakir að vogunarsjóðir hafa ekki alltaf verið hátt skrifaðir hjá samtökunum. Á árinu hafa vogunarsjóðir tekið stöður í olíu fyrir andvirði eins milljarðs tunna sem hefur átt sinn þátt í að þrýsta olíuverði upp.

Slíkir fundir hafa átt sér stað síðan á síðasta ári í kjölfar þess að sögulegt samkomulag náðist milli samtakanna og Rússa um að draga úr framboði á olíu.

Barkindo sagði að stjórnendur sjóðanna hafi varpað ljósi á ýmis atriði á fjármálamörkuðum en sumir þeirra hafi einnig gefið upp að þeir væru ekki eins miklir galdramenn og margir gerðu ráð fyrir.

„Margir þeirra hafa litla eða enga reynslu eða grunnskilning á því hvernig viðskipti með vöruna á mörkuðum fara fram,“ sagði Barkindo.