„Mér þykir ótrúlegt að þessi stóru erlendu kröfuhafar ætli að halda íslenskum kröfuhöfum bankanna - og þar með íslensku þjóðinni - í gíslingu,“ segir Heiðar Már Guðjónsson í samtali við DV .

Ursus ehf., fjárfestingafélag í eigu Heiðars, lagði fram beiðni um gjaldþrotaskipti á hendur slitabúi Glitnis í desember í fyrra. Nú hafa stærstu kröfuhafar Glitnis farið fram á meðalgöngu í málinu þar sem þeir munu krefjast þess að því verði vísað frá dómi, að því er fram kemur í DV.

Hópur kröfuhafanna samanstendur af áttatíu vogunarsjóðum, en Heiðar kveðst undrandi á þessu útspili. „Kröfurétturinn er sterkur og ef fjármálastofnun getur ekki greitt skuldir sínar þá ber að setja hana í greiðsluþrot. Sú staðreynd að fjármagnshöftin hefti útgreiðslur til erlendra aðila kemur slitabúunum sem slíkum ekki við. Það er mál sem snertir þau lög sem gilda um gjaldeyrismál en ekki lög um gjaldþrot.“