Bandarískir og breskir vogunarsjóðir eru farnir að veðja gegn evrópskum fyrirtækjum en bann á skortsölu í sex Evrópulöndum var aflétt í síðustu viku. Financial Times greinir frá.

Citadel, Millennium Management og Marshall Wace voru meðal þeirra sjóða sem tóku skortstöðu í evrópskum fyrirtækjum um leið og Frakkland, Ítalía, Spánn, Austurríki, Grikkland og Belgía afléttu banninu síðasta mánudag.

Opinberar veltutölur í löndunum sex sýndu að hlutfall skortstöðu hækkaði um 75% á þriðjudag og miðvikudag. Hlutfallið hefur aldrei verið jafnhátt í ár samkvæmt greiningu gagnaveitunnar Breakout Point. „Það má segja að eftirspurn sem haldið var í skefjum í margar vikur hafi verið sleppt lausri,“ segir Ivan Cosovic, stofnandi gagnaveitunnar.

Á meðal hlutabréfa sem vogunarsjóðirnir tóku skortstöðu í var Air France-KLM, franska kaplasmiðjan Nexans og spænska orkufyrirtækið Ence Energia Y Celulosa sem sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku.

Marshall Wace jók einnig skortstöðu sína í ítalska bankanum Banco BPM og er hún núna 0,83% af útistandandi hlutum bankans. Citadel bætti einnig við skortstöðu sína í ítalska orkufyrirtækinu Saipem og franska bílahlutafyrirtækinu Valeo á þriðjudag og miðvikudag í síðustu viku.

Fréttir af skortsölum vogunarsjóðanna gætu kynt undir umræðunni um hvort bönn á skortsölum séu skilvirk. Löggjafar lögðu á eins mánaða bann um miðjan mars síðastliðinn þegar markaðir titruðu og fjárfestar áttu erfitt með að spá um efnahagsáhrif faraldursins. Bannið var síðan framlengt í apríl.

Framkvæmdastjóri FMA, eftirlitsaðili á áströlskum markaði, sagði að takmarkanir á skortsölum hafi verið mikilvægar til að koma í veg fyrir of sterk viðbrögð á mörkuðum. Eftirlitsaðilinn FCA í Bretlandi sagði hins vegar í mars að engar sannanir væru fyrir því að skortsala hafi leitt til lækkunar á hlutabréfaverðum.

Gagnrýnendur bannsins segja að skortsala auki greiðslugetu og geti sprengt bólur á mörkuðum. Þeir benda einnig á að skortstöður í einu hlutabréfi jafnast oft út vegna gnóttstöðu í öðru hlutabréfi sem getur jafnvel verið í sama geira og hitt.