*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 31. maí 2018 08:28

Fjárfestingarsjóðir vilja 5% í Arion

Samið hefur verið við tvo stóra fjárfestingarsjóði um að kaupa allt að fjórðung af bréfum í útboði Arion banka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengið hefur verið frá samkomulagi við tvo stóra fjárfestingarsjóði um að þeir kaupi upp allt að fimmtung af þeim bréfum sem verða í boði í boðuðu hlutafjárútboði Arion banka að því er Fréttablaðið greinir frá.

Í hlutabréfaútboðinu sem er undanfari skráningar bankans á markað er áætlað að selja að lágmarki fjórðungshlut, mögulega meira í bankanum, og gæti því samanlagður eignarhlutur sjóðanna numið upp undir 5% í Arion banka.

Fossar markaðir höfðu milligöngu um samkomulagið, en um er að ræða tvo af þeim vogunarsjóðum sem hafa verið umsvifamiklir á hlutabréfamörkuðum hér á landi síðustu misserin og eru þeir í hópi stærstu hluthafa í fyrirtækjum kauphallarinnar.

Hins vegar er ekki ljóst um hvaða sjóði er verið að ræða enn sem komið er, en þeir sjóðir sem falla undir þessa skilgreiningu eru til að mynda sjóðir á vegum Eaton Vance, Miton Group, Landsowne Partners og Wellington.