Hópur 34 vogunarsjóða fjármagnaði skýrslu þar sem lagt er til að stjórnvöld í Púertó Ríkó láti loka skólum, reki kennara og dragi úr niðurgreiðslum á háskólanámi. Skýrslan er viðbrögð við greiðslufalli hjá Púertó Ríkó sem Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum.

Púertó Ríkó er eyja í Karíbahafinu sem lútir yfirráðum Bandaríkjanna, þrátt fyrir að vera ekki hluti af sambandsríkinu. Á milli áranna 2004 og 2013 fækkaði íbúum eyjunnar um 212.000 á sama tíma og heildarútgjöld ríkisins hækkuðu um 29%, samkvæmt skýrslu vogunarsjóðanna.

Í skýrslunni, sem CNN Money fjallar um, segir einnig að nemendum á Púertó Ríkó hafi fækkað um 25% eða um 200.000 á þessu sama tímabili. Þrátt fyrir það hafi opinber útgjöld til menntamála aukist um 39%.

Vogunarsjóðirnir sem fjármögnuðu skýrsluna segjast eiga um 5,2 milljarða dollara af 70 milljarða dollara skuldum yfirvalda í Púertó Ríkó.