Stjórnendur bandarískra vogunarsjóða styrktu forsetaframboð Barack Obama og aðra Demókrata um háar fjárhæðir árið 2008. Fyrir næstu kosningar virðast gjafmildir vogunarsjóðir hinsvegar vera búnir að snúa baki við forsetanum og styrkja Repúblikana í auknum mæli, að því er Wall Street Journal greinir frá.

Þannig var Daniel Loeb, stofnandi sjóðsins Third Point LLC, einn stærsti styrktaraðili Obama árið 2008. Hann styrkt Obama um 200 þúsund dali á árinu 2008 og hafði fyrir þann tíma nær eingöngu styrkt Demókrata. En síðan Obama tók við embætti hefur Loeb gefið frambjóðendum Repúblikanaflokksins um 468 þúsund dali. Í frétt WSJ er bent á að stjórnendur vogunarsjóða hafi tilfinningar líkt og annað fólk. Obama virðist hafa sært þá.

Forsetinn hefur verið nokkuð gagrýninn í garð bankanmanna á Wall Street og virðist sem orð hans hafi farið fyrir brjóstið á þeim. Þá virðast forsvarsmenn sjóðanna vera ósammála stefnu forsetans um hvernig skuli taka á fjárlagahalla Bandaríkjanna.

Vogunarsjóðir komu næst á eftir lögfræðistéttinni í röð stærstu styrktaraðila Obama árið 2008.