Vogunarsjóðurinn Eaton Vance Management er orðinn næst stærsti hluthafi Símans, með 10,09% hlut samkvæmt flöggunartilkynningu til Kauphallar Íslands en markaðsvirði hlutarins er tæplega 3,9 milljarðar króna.

Alls eru sjóðir í stýringu hjá fjórum vogunarsjóðum á meðal tuttugu stærstu hluthafa Símans. Sjóður í stýringu hjá Lansdowne á 2,85% í Símanum, The Wellington Trust Company á 2,22% hlut og CF Miton á 1,52% hlut. Stærsti hluthafi Símans er Lífeyrissjóður verslunarmanna sem á 12,47% hlut en sjá má lista yfir 20 stærstu hluthafa fyrirtækisins hér.

Vogunarsjóðir hafa bætt verulega í hlut sinn í skráðum félögum hér á landi undanfarin tvö ár. Bandarískir og breskir fjárfestingasjóðir áttu rúmlega 13% af útgefnu hlutafé í tryggingarfélögum sem metinn var á um 10 milljarða króna í byrjun mánaðarins. Þá áttu þau um 12,5% í fjarskiptafélögunum Vodafone og Símanum og 13,9% í N1 og tæp 6% í fasteignafélögunum.