Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners, er kominn í hóp stærstu hluthafa N1. Samkvæmt upplýsingum um 20 stærstu hluthafa N1 á Lansdowne Partners 3,8% hlut, en markaðsvirði hlutarins er um 1,15 milljarðar króna.

Sjóðurinn keypti einnig 6,06% í vikunni hlut í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone á Íslandi, fyrir um 1,1 milljarð króna.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins kom fram að erlendir fjárfestar hafi haldið áfram að auka eignarhlut sinn í skráðum félögum hér á landi eftir að ríkisstjórnin féll og boðað var til kosninga.

Þá greindi Viðskiptablaðið frá því í byrjun september að Lansdowne Partners hygðist stofna sjóð til að fjárfesta á Íslandi og Írlandi á þessu ári. „Það eru ótrúleg tækifæri á Írlandi og Íslandi og þau hafa klassískan efnahagsbata-vinkil sem óhætt er að segja að sé erfitt að finna í öðrum heimshlutum,“ segir sjóðsstjórinn David Craigen hjá Lansdowne Partners þá.

Lansdowne Partners, einn stærsti og elsti vogunarsjóður Evrópu og er með um 19 milljarða Bandaríkjadala í stýringu. Bandaríski bankinn Morgan Stanley 19% hlut í félaginu.

Annar breskur sjóður keypt í tryggingarfélögunum

Þá hefur breski fjárfestingarsjóðurinn CF Miton UK Multi Cap Income aukið við eignarhlut sinn í tryggingarfélögunum. Sjóðurinn er nú meðal 20 stærstu hluthafa TM með 2,14% hlut. Þá hefur CF Miton aukið hlut sinn í Sjóvá úr 2,36% í 3,07% og í VÍS um ríflega hálft prósent og á nú 3,33% hlut í VÍS.