Vogunarsjóðir, sem velta um það bil 2 þúsund milljörðum Bandaríkjadala að sögn breska blaðsins The Daily Telegraph, eiga nú í miklum vanda og hafa ekki staðið verr í 18 ár að sögn blaðsins.

Í úttekt Telegraph um vogunarsjóði frá því í gær kemur fram að lausafjárskortur og minnkandi hagvöxtur helstu hagkerfa heims komi mikið niður á slíkum sjóðum þar sem litlir möguleikar séu á fjárfestingarstarfssemi.

Blaðið segir vogunarsjóðina, sem hingað til hafi hreytt sjálfum sér af því að standa sig betur en aðrar fjármálastofnanir, vera helstu fórnarlömb þeirrar krísu sem nú ríður yfir heiminn og hefur valdið miklum vandræðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Þá segir blaðið að sjóðirnir horfi nú fram á verstu afkomur sínar frá því árið 1990, en það ár var farið að mæla árangur sjóðanna. Þannig hafi verðmæti sjóðanna dregist saman að meðaltali um 4,7% það sem af er árinu.

Telegraph nefnir nokkra sjóði sérstaklega, t.d. Atticus Capital, TPG-Axon, Citadel and Lone Pine Capital og segir verðmæti þeirra hafa lækkað um allt að 25%.

Þá hafi fjárstreymi til sjóðanna fyrstu sex mánuði ársins aðeins verið um 30 milljarðar dala en það var á sama tíma í fyrra tæpir 120 milljarðar dala.

Blaðið fullyrðir að vogunarsjóðsstjórar sitji nú sveittir og bíði eftir lokum þessa mánaðar – en 30. september er sá frestur sem fjárfestar hafa til að draga fé sitt út úr sjóðunum fyrir áramót, kjósi þeir að gera svo.

Samkvæmt úttekt blaðsins hefur fjöldi vogunarsjóða ýmist verið endurskipulagðir, talið fjárfesta af því að draga fé sitt út úr þeim nú eða þá einfaldlega hætt starfssemi.

Það geri það hins vegar að verkum að fjárfestar leiti með fjármagn sitt til annarra fjármálastofnana sem „hirði rjómann af kökunni“ af þeim 200 vogunarsjóðum sem hætt hafa starfssemi á árinu að sögn The Daily Telegraph.