Vogunarsjóðir hafa keypt um 25% hlut í norrænu kauphallarsamstæðunni OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum, á sama tíma og beðið er eftir yfirvofandi yfirtökustríði á milli kauphallarinnar í Dubai og Nasdaq, sem meðal annars rekur samnefnda kauphöll í Bandaríkjunum, að því er fram kemur í Financial Times.

Með þessum kaupum vogunarsjóðanna er ljóst að mjög mismunandi viðhorf verða uppi á meðal hluthafa OMX þegar horft verður til þess hvaða þættir muni ráða úrslitum um söluna á OMX. Sænsk stjórnvöld, sem eiga 6,6% eignahlut í OMX, og Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenberg fjölskyldunnar, sem á 10,7% hlut í OMX, hafa staðhæft fyrr í vikunni að sjálft kaupverðið muni ekki endilega verða sá þáttur sem hvað mestu máli eigi eftir að skipta í því samhengi, en sænska ríkisstjórnin hefur meðal annars sagt að sænska kauphöllin sé hluti af "strategískum iðnaði" sem önnur lögmál gildi um heldur en aðra geira í atvinnulífinu. Fyrir vogunarsjóðina munu hins vegar slík sjónarmið ekki eiga upp á pallborðið heldur munu þeir einungis leitast eftir því að fá sem hæsta mögulega verð fyrir hlut sinn í OMX.

Kauphöllin í Dubai keypti síðastliðinn fimmtudag 4,9% hlut í OMX á 230 sænskar krónur á hlut, en jafnframt greindi félagið frá því að það hefði gert kaupsamning um að auka hlut sinn í OMX upp í samtals 27,4%. Nasdaq hafði áður komist að samkomulagi við OMX um að kaupa fyrirtækið á 3,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 208 sænskum krónum á hlut.

Í frétt Financial Times segir að vogunarsjóðirnir hafi keypt um 32 milljónir hluta - aðallega af sænskum stofnfjárfestum - og hafi meðalverð kaupanna numið um 212 sænskum krónum á hlut. Stærstur hluti kaupanna átti sér stað eftir að Nasdaq lagði fram yfirtökutilboð sitt í OMX í maímánuði.

Sérfræðingar telja að innkoma vogunarsjóðanna hafi verulega jákvæða þýðingu fyrir kauphöllina í Dubai eftir að hún gerir væntanlegt yfirtökutilboð í OMX, sem verður töluvert hærra heldur en það sem Nasdaq hefur áður lagt fram. Allar líkur eru taldar á því að tilboð kauphallarinnar í Dubai eigi eftir að hljóta stuðning vogunarsjóðanna, en stjórnendur Nasdaq hafa engu að síður gefið það til kynna á undanförnum dögum að þeir séu reiðubúnir til að koma fram með hærra tilboð í OMX.