Vogunarsjóðir nýta sér nú ákvæði mannréttindalaga í þeim tilgangi að endurheimta fé sitt með skapabótum frá hinum opinbera.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph.

Vogunarsjóðirnir RAB Special Situations og SRM Global Master Fund höfðuðu nýlega mál fyrir breskum dómsstólum þar  sem þeir héldu því fram að með þjóðnýtingu Northern Rock bankans hafi þeir verið sviptir eigum sínum, þ.e. hlutabréfaeign sinni í bankanum og slík „eignarupptaka“ stangist á við mannréttindalög.

Eins og gefur að skilja töpuðu sjóðirnir eigum sínum og krefja nú ríkið skaðabóta vegna þessa. Að eigin sögn var verðmæti eigna þeirra í bankanum um 3 milljarðar Sterlingspunda.

Þá greinir blaðið frá því að bæði fyrirtæki og einstaklingar hafa nýtt mannréttindalög gegn breska ríkinu vegna skatta og tollamála þarm sem þeir telja að á þeim hafi verið brotið.

Blaðið hefur eftir Stephen Grosz, mannréttindalögfræðingi hjá Bindman & Partners að þrátt fyrir að þeim málum fari almenn fækkandi þar sem einstaklingar og fyrirtæki nota ákvæði mannréttindalaga til að ná fram rétti sínum dúkki þau upp á hinum ýmsu sviðum. Þá segir hann að málum sem tengjast fjármálagjörningum annars vegar og deilum um skatta og tolla hins vegar fari fjölgandi.

„Það verður mjög athyglisvert að sjá hvort að afskipti yfirvalda muni gera ríkið skaðabótaskylt á grundvelli mannréttindalaga,“ segir Grosz í samtali við Telegraph og bætir því við að fjárfestar sýni því nú mikinn áhuga að höfðu mál gegn ríkin á grundvelli laganna í þeim tilgangi að endurheimta eignir sínar.