Margir vogunarsjóðir hafa tapað stórum fjárhæðum vegna veðmála um að verðbólguvæntingar markaðins myndu minnka. Englandsbanki hélt því fram í dag að margir hefðu brennt sig illa eftir að verðbólguvæntingar náðu hámarki síðan 1997.

Telegraph segir frá því að veðmál sumra sjóðanna hafi verið svo stór að þau höfðu áhrif á meðalverðbólgustig sem fjárfestar bjuggust við. Mælingar á verðbólguvæntingum að undanförnu hafa verið taldar merki um að fjárfestar hafi ekki trú á að Englandsbanki nái markmiðum sínum. Hins vegar benda nýjar rannsóknir til þess að veðmál vogunar- og lífeyrissjóða hafi haft ríkari áhrif á mælingarnar en áður var haldið.

Á ársfjórðungslegu riti Englandsbanka sagði að starfsemi vogunarsjóða hefði haft mikil áhrif á framvirkar verðbólgumælingar á þessu ári: „Einhverjir vogunarsjóðir hafa tekið ákveðnar stöður og vonast eftir falli á væntri meðalverðbólgu. [...] Lífeyrissjóðir hafa einnig haft áhrif á þessa þróun, og ásamt takmörkuðu framboði verðtryggðra verðbréfa hafa mælingar á framtíðarverðbólgu skekkst,” segir í umfjöllun Englandsbanka.