Samuel Israel III, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bayou Group vogunarsjóðsins reyndi að setja á svið sjálfsvíg til að forðast afplánun en Israel var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir fjárdrátt og fjársvik í apríl á þessu ári.

Israel var dæmdur fyrir að draga sér allt að 400 milljón Bandaríkjadali frá viðskiptavinum Bayou Group og í kjölfarið keyrt vogunarsjóðinn viljandi í gjaldþrot.

Israel átti að gefa sig fram síðastliðinn föstudag til að hefja afplánun en mætti ekki. Reuters fréttastofan hefur eftir ónefndum fulltrúum bandarísku alríkislögreglunnar og fylkislögreglu New York að framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi sett á svið sitt eigið sjálfsvíg til að forðast afplánun.

Bíll hans fannst fyrr í vikunni við Bear Mountain brúnna rétt utan við New York. Bíllinn var rykfallinn en á húdd bílsins hafði verið skrifað „Sjálfsvíg er sársaukalaust“.

Grunur liggur á að Israel hafi stokkið af brúnni og þannig tekið sitt eigið líf. Það sem hins vegar vekur upp grun um sviðsetningu er að brúin er alfarin og engin vitnir virðast hafa orðið að atvikinu. Retuers greinir einnig frá því að áður hafi verið framin sjálfsvíg við þessa brú og hægt sé að ganga að því vísu hvar líkin reki á land eftir slíka atburði. Ekkert lík hefur hins vegar fundist enn.