Þrír fjárfestingasjóðir í rekstri GAMMA áttu í lok síðasta árs samtals um 2,1% hlut í breska nýsköpunarfyrirtækinu Simba Sleep sem framleiðir heilsudýnur og aðrar svefnvörur. Heildarverðmæti félagsins hefur hríðlækkað undanfarið ár eða úr 200 milljónum punda niður úr 20 milljónir og hafa sjóðirnir auk annarra íslenskra fjárfesta tapað yfir helming af fjárfestingu sinni.  Sjóðirnir sem um ræðir eru fagfjárfestasjóðurinn GAMMA: Grunnvirki með 1,41% hlut, GAMMA: Total Return með 0,54% og GAMMA: Global Invest með 0,16% hlut. Þess má geta að bæði Total Return og Global Invest hefur verið lokað og eru þeir í innlausnarferli.

Samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni eru sjóðir GAMMA þó ekki einu tengsl Íslands við Simba Sleep. Á meðal hluthafa í félaginu eru einnig þeir Baldur Guðlaugsson með 0,19% hlut, fjárfestirinn Magnús Ármann með 0,38% hlut og Guðmundur Gauti Reynisson, einn stærsti eigandi Húsgagnahallarinnar, Betra Bak og Dorma, með 0,91% hlut en eignarhald þeirra tveggja síðarnefndu er í gegn um félög í Lúxemborg. Samtals áttu íslenskir aðilar því um 3,6% hlut í Simba við lok síðasta árs. Þá starfaði Guðmundur Gauti einnig sem framkvæmdastjóri hjá félaginu en hann var yfir alþjóðlegri sölu og viðskiptaþróun frá janúar 2017 til ágúst á síðasta ári.

Samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni fór fjárfesting íslensku fjárfestanna fram á árinu 2017. Í lok þess árs var hlutur þeirra stærri en hann var við lok síðasta árs en Simba fór í hlutfjáraukningu árið 2018 sem gerði það að verkum að hlutur sjóða GAMMA lækkaði um 0,4 prósentustig og íslensku fjárfestanna allra um samtals 0,7 prósentustig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Markaðsátak Árborgar er ætlað að breyta staðalímyndum um Selfoss.
  • Digrir varasjóðir Costco á Íslandi vekja athygli.
  • Lífeyrissjóðir virðast vera að taka í bremsuna varðandi ný lán til sjóðsfélaga
  • Fjallað er um nýja útgefna nýsköpunarstefnu Íslands.
  • Farið er yfir þau þingmál vetrarins sem munu hafa áhrif á Viðskiptalífið.
  • Óhætt er að segja að skráningarlýsing WeWork hafi haft önnur áhrif en lagt var upp með.
  • Ítarleg úttekt á stöðu vaxta- og peningamála en vaxtalækkanir virðast skila sér illa til fyrirtækja.
  • Árni Pétur Jónsson, nýr forstjóri Skeljungs er í ítarlegu viðtali.
  • Kúvending verður á veiðifyrirkomulagi í Blöndu og Svartá á næsta ári.
  • Óðinn fjallar um íslenska hlutabréfamarkaðinn.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs.