Alfreð Tulinius skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic ehf. sagði í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni 7. nóvember sl. að vestræn ríki hefðu vakið rússneska björninn úr dvala með viðskiptaþvingunum sínum. Þær hefðu hrundið af stað mikilli uppbyggingu og endurnýjun í sjávarútvegi í Rússlandi og það ásamt mun hagstæðari rekstrarskilyrðum eigi eftir að skila sér í gjörbreyttu samkeppnisumhverfi á alþjóðamörkuðum.

Skipahönnunarfyrirtækið Nautic er með starfsemi í Reykjavík og Pétursborg. Fyrirtækið hefur samið um hönnun á tíu togurum fyrir rússneska útgerðarrisann Norebo og er með fleiri járn í eldinum hvað það varðar. Í erindi Alfreðs var talsvert vikið að umhverfi sjávarútvegs á Íslandi og Rússlandi.

Auðlindagjöld útrýmt vinnsluskipum

Alfreð vék að því að skilgreind endurnýjunarþörf væri fyrir 35 togara og 110 vélskip á Íslandi til ársins 2030. Samtals væri þetta áætluð endurnýjunarþörf upp á 180 milljarða króna. Eitthvað hafi nú þegar skilað sér til landsins í nýsmíðum en ætla megi að enn vanti upp á 28 togara og 110 vélskip til ársins 2030.

„Síðastliðin fimm ár hefur verið fjárfest í íslenskum sjávarútvegi fyrir um 113 milljarða kr. Fjárfestingarnar eru jafnt í skipakosti og landvinnslu og auk þess í landvinnslu tengdri ferskfiskvinnslu. Það má hins vegar vekja athygli á því að einungis eitt vinnsluskip hefur verið endurnýjað á síðustu árum og annað vinnsluskip sem nú er í smíðum fyrir íslenska útgerð er líklega í söluferli,“ sagði Alfreð og vísaði þar til frystiskips sem HB Grandi, nú Brim, hefur látið smíðað fyrir sig á Spáni.

Alfreð spurði hvort það væri regluverkið eða innlendur launakostnaður sem hefði ýtt undir þessa þróun. Ljóst væri alla vega að það væri nánast búið að útrýma frystiskipaútgerð á Íslandi.

„Núverandi fyrirkomulag í álagningu auðlindagjalda veldur því að sami afli er dýrari unninn úti á sjó en ef hann er unninn í landi. Þar með verður kostnaðurinn hærri og samkeppnishæfnin minni.“

Alfreð kvaðst bera mikla virðingu fyrir hagsmunabaráttu sjómanna en hún þurfi að fara fram með skynsemi. Hann sagði að skapa þyrfti grundvöll fyrir vinnsluskip þannig að þau gætu aftur orðið álitlegur kostur. Auðlindagjöld og launafyrirkomulag komi til með að hafa mikil áhrif hver þróunin verði á næstu 20-30 árum í þessum efnum.

Alfreð sagði að gríðarleg endurnýjun væri nú í sjávarútvegi í Rússlandi og þaðan mætti búast við stóraukinni samkeppni í framboði á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Samanburður á veiðiheimildum sýni líka svo ekki verði um villst að við öflugan björn er að etja þar sem rússneski björninn er. Þar í landi er útgefinn kvóti 2,9 milljónir tonna, þar af 800.000 tonn í bolfiski, meðan heildarkvótinn er 1.260.000 tonn á Íslandi.

Hvatakerfi og ríkisstyrkir

Hann sagði rekstrarumhverfi útgerðarinnar á Íslandi líta þannig út að launakostnaður væri 35-42% af aflaverðmætum, veiðigjöld 8-14%, skattur af hagnaði 20% og að nær öll vinnsla fari fram í landi. Í Rússlandi væri launakostnaðurinn 10-15%, veiðigjöld 0,3-10% og fullvinnsla um borð sé algengasti vinnslumátinn. Hvatakerfi stjórnvalda feli í sér endurúthlutun á fjárfestingakvóta á 15 ára fresti til þeirra sem fjárfesta markvisst í greininni og ríkið niðurgreiði nýsmíði minna skipa um 20-25%. Árið 2018 voru undirritaðir samningar upp á andvirði um 650 milljarða ÍSK í Rússlandi í tengslum við uppbyggingu í sjávarútvegi meðan fjárfestingar nemi 113 milljörðum ÍSK á Íslandi síðastliðin 5 ár eða að jafnaði 22,6 milljarðar á ári. Í Rússlandi megi gera ráð fyrir fjárfestingu upp á yfir 200 milljarða á ári næstu 5 ár. Þar eru þessa stundina 43 skip í smíðum og 26 landvinnslur. Rússland sé því samkeppnisaðili með þrisvar sinnum stærri kvóta, þrisvar til fjórum sinnum lægri launakostnað, lægri flutningskostnað og ríkisstyrkta uppbyggingu.

„Auðvitað voru það viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja sem leiddi til þessarar vakningar í Rússlandi um sjálfbærni. Deila má um réttmæti viðskiptaþvingana en tæpast er hægt að horfa fram hjá þeim fórnarkostnaði sem íslensk stjórnvöld kusu að leggja á íslenskan sjávarútveg. Nú einhverjum árum síðar er ekki sjáanlegur nokkur árangur af þessum þvingunum. Þvert á móti. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Í einn stað eru það tapaðir markaðir í Rússlandi fyrir okkar afurðir og í annan stað höfum við verið hvati að vakningu mjög öflugs framleiðanda á erlendum mörkuðum.“