Gríðarleg tækifæri eru til staðar fyrir heilbrigðiskerfi um allan heim til að bæta umsjá með sjúklingum með mælingum og einkennamati yfir langan tíma. Umgjörðin er veik í dag og veldur þannig óþarfa álagi á bráðamóttökum. Þetta segir Ólafur Viggósson, framkvæmdastjóri vöruþróunarsviðs Sidekick Health, sem þróar stafrænar heilbrigðislausnir.

Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um öran vöxt Sidekick, sem er að opna skrifstofur í Berlín og Boston. Spurður út í framtíð geirans og hvernig lausnir Sidekick geti aðstoðað heilbrigðiskerfi, segir Ólafur mikilvægt að bæta umgjörðina um hvernig haldið er utan um sjúklinga. Hann tekur dæmi um almenna heilbrigðisþjónustu á Íslandi í dag.

Þegar einstaklingur finnur fyrir veikindum eða einkennum, þá getur sjúkdómur verið langt kominn á veg. Svo pantar hann tíma, sem getur verið eftir nokkra daga eða vikur. Þá hefur fólk valkost um að bíða eða fara á bráðamóttökuna. Margir telja sig ekki alvarlega veika og kjósa að bíða. Þegar kemur að tíma hjá lækni þá byrjar hann að mæla þig og fær þá bara punktstöðu. Almennt hefur læknir þá takmarkaðar upplýsingar, sem byggja oft á því hvernig þér líður þann tiltekna dag, og þarf því að taka ákvörðun út frá því. „Þessi umgjörð er rosalega veik,“ segir Ólafur.

„Hin leiðin, sem tæknin er að fara að færa okkur nær, er vöktun á heilsuhegðun yfir langan tíma, sem er einmitt það sem við hjá Sidekick gerum. Við fræðum og einkennametum þig, ekki á einum punkti heldur yfir langan tíma. Fyrir vikið fá einstaklingar og læknar margfalt meiri og nákvæmari upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun um það sem er í raun að hrjá þá heldur en við höfum í kerfinu í dag.“

Ólafur segir að tæknin sé þegar orðin nægilega góð til að bæta verulega þær upplýsingar sem við vöktum. Hann sér jafnvel fyrir sér að í framtíðinni þá þurfi maður ekki hringja í lækni heldur hringi þeir og kalli fólk inn ef eitthvað kemur upp.

„Ég vil að komumst úr því að vera stöðugt að bíða og tækla einhverjar afmarkaðar afleiðingar seinna meir. Þess í stað getum við frekar unnið með þér yfir lengri tíma og þá veitt inngrip þegar þörf er á.“

Getum létt álagið á bráðamóttökunni

Sidekick hefur átt í samstarfi við nokkrar deildir innan Landspítalans, þar á meðal hjarta- og krabbameinsdeildirnar. Einnig kom fyrirtækið inn með lausn hér á landi til aðstoða starfsfólk spítalans við að vakta Covid-sjúklinga í einangrun. Þau verkefni eru vel skilgreind og ganga mjög vel að sögn Ólafs.

Hins vegar eru stór tækifæri til að gera betur þegar litið er á Landspítalann í heild sinni. Hér starfi mjög fært fólk en þegar kemur að heilbrigðismeðferðum eigum við nóg inni.

„Kerfið er í raun sett upp þannig að við bíðum alltaf þar til þú þurfir á bráðaþjónustu að halda. Þá er fólk sent á bráðamóttökuna sem að sjálfsögðu springur að lokum. Það er fullt af hlutum sem við gætum gert úr fjarlægð með stafrænum lausnum sem hjálpa til við það að brúa þetta stóra bil sem er til staðar í dag og létt þannig á álaginu á bráðamóttökunni,“ segir Ólafur.