Orkufyrirtækið Ineos, sem er í meirihlutaeigu Jim Ratcliffe, stefnir að því að byggja tilraunastöð í Bretlandi þar stuðst verður við vinnslu með vökvabroti (e. fracking). Fyrirtækið heldur því fram að vinnsla á leirsteinsgasi (e. shale gas) í Bretlandi geti gert þjóðina sjálfbæra í orkumálum á tíu árum.

„Bretland er í miðri orkukrísu. Gasverð er nærri tífalt hærra en í Bandaríkjunum en fyrir ári síðan var munurinn þrefaldur,“ skrifar Ratcliffe í grein sem birtist í breska dagblaðinu The Daily Telegraph í gær.

Ineos óskaði eftir leyfi frá bresku ríkisstjórninni að setja upp tilraunastöð stuttu eftir að hún skipaði nýlega starfshóp til að vinna skýrslu um vökvabrot. Aðferðin var stöðvuð í Bretlandi árið 2019 eftir mótstöðu frá umhverfissinnum og fólki á landsbyggðinni sem hafði áhyggjur af smáskjálftum.

Ineos hafði fyrir þann tíma fjárfest fyrir 250 milljónir punda eða um 42 milljarða króna í fyrstu skref í vinnslu á leirsteinsgasi með stuðningi breska ríkisins að sögn Ratcliffe. „Við vorum greinilega barnaleg að treysta á þau loforð,“ skrifar auðkýfingurinn. Hann segir að Ineos hafi töluvert af jarðgasi á öllu Norður-Englandi en hafi ekki fengið leyfi frá stjórnvöldum til að sannreyna að tæknin geti verið örugg í rekstri.

„250 milljóna punda fjárfesting var eyðilögð með því að ýta á einn pólitískan rofa, án boða um bætur eða í það minnsta afsökunarbeiðni,“ skrifar Ratcliffe. „Vökvabrot var skrímslavætt af fáfróðum minnihlutahópi þrátt fyrir að raunveruleikinn hafi verið allt annar.“

Vökvabrot er aðferð sem felur í sér að í kjölfar borunar er vökva dælt niður í holuna undir háum þrýstingi þar til bergið brestur og sprungur opnast út frá holunni. Á síðustu árum hefur þessari aðferð verið beitt í auknum mæli við vinnslu jarðgass úr fornum setlögum, einkum leirsteini (e. shale).

Umrædd vinnsluaðferð hefur rutt sér til rúms í olíubransanum í Bandaríkjunum á síðustu árum. Um aldamótin vó olía unnin með vökvabroti um 2% af allri olíuframleiðslu í Bandaríkjunum en árið 2016 var hlutfallið komið yfir 50%. Ratcliffe segir að þessi þróun hafi haft í för með sér gífurlegan ávinning fyrir bandaríska hagkerfið, m.a. með auknum hvata fyrir fjárfestingar í stóriðju.

„Okkar skuldbinding til breska samfélagsins var að endurtaka ferlið hér í Bretlandi með því að beina 6% af heildarvirðinu beint inn í samfélagið þar sem jarðgasið er sótt,“ skrifar Ratcliffe og bætir við að gasframleiðsla með vökvabroti muni leiða til meiri velsældar til fyrri iðnaðarsvæða í Bretlandi en eitthvert framtak af hálfu ríkisins geti nokkurn tímann skilað.

Í grein Páls Einarssonar, prófessors emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ, sem birtist á Vísindavefnum árið 2017 eru dregnar fram sex helstu ádeilurnar á þessa vinnsluaðferð. Meðal þeirra er að vatnsból í nálægð við vinnsluholur geti verið í hættu fyrir efnamengun. Þá feli aðferðin í sér mikla vatnsnotkun og henni geti fylgt sjón- og hávaðamengun ásamt því að geta leitt til aukinnar skjálftavirkni.

Háð erlendum ríkjum

Breska ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku um nýja stefnu í orkumálum, sem felur í sér fleiri kjarnakljúfa, vindbú og sólarorkuver. Hins vegar var ekkert minnst á vökvabrot. Það hefur þó verið kallað eftir að bannið verði endurhugsað í ljósi núverandi orkukrísu, að því er kemur fram í grein BBC .

Í fyrrnefndri grein Ratcliffe bendir hann á að helmingurinn af jarðgasi sem notað er í Bretlandi sé flutt inn. Breska þjóðin sé því háð erlendum mörkuðum þar sem verð hefur hækkað hratt að undanförnu. Hann bendir jafnframt á innviðir Bretlands geti einungis geymt um 2% af árlegri eftirspurn samanborið við 25%-37% í Evrópulöndum sem standa best að þessum málum.

„Að segja að orkuöryggi okkar sé í hættu er vægt til orða tekið,“ skrifar Ratcliffe.

Hann segir aukna áhersla á endurnýjanlega orkugjafa jákvæða en að þeir verði þó sveiflukenndir um ókomna tíð. Fyrir vikið sé einnig þörf á öðrum orkugjöfum og þar er jarðgasið hreinasta og grænasta lausnin að sögn Ratcliffe. Hann bendir í því ljósi á að 80% af breskum heimilum séu upphituð með jarðgasi og að það muni taka þau mörg ár að færa sig yfir í aðra orkugjafa til húshitunar.

Auðkýfingurinn segir að Bretland geti ekki byggt orkustefnu sína í kringum fljótandi jarðgas (e. liquefied natural gas) og þurfi því að horfa til annarra svæða, annað hvort í Norðursjónum eða á landi.

Ratcliffe segir að þróun í Norðursjónum á sjöunda áratugnum hafi gert Bretlandi kleift að standa vel í orkumálum. Ásamt því að hafa tryggt sér langtímaframboð af jarðgasi hafi stjórnvöld haldið vel utan um taumana hvað varðar kjarnakljúfa. Hann harmar þó að síðustu áratugina hafi breska ríkisstjórnin ekki haft neina samræmda orkustefnu og kallar eftir langtímahugsun.

Ratcliffe segir að bresk stjórnvöld séu ekki ein um þessi mistök og að ákvörðun stjórnvalda í Þýskalandi að draga úr notkun kjarnorku hafi verið versta mögulega niðurstaðan þar sem nú þurfi að leita til kolavera til að halda uppi orkuþörf.