Toyota Land Cruiser er án efa vinsælasti jeppi Íslands undanfarinn áratug. Það er bara þannig að þótt margir bílaframleiðendur bjóði upp á flotta jeppa hvort sem þeir eru í lúxusbílaflokki eða ekki þá hefur Land Cruiser haft vinninginn hér á Fróni. Hann hentar vel íslenskum aðstæðum, er stór og plássmikill, með góða torfærueiginleika og kemst því nánast hvert sem er. Land Cruiser 150 kom nýverið með andlitslyftingu og nokkrum breytingum sem hafa heppnast ágætlega og ættu ekki að draga úr vinsældum hans.

Framendi bílsins er að segja má alveg nýr og augljóslegasta breytingin, með útstandandi grilli og endurhönnuðum aðalljósum. Hefur ljósasamstæðan verið hækkuð nokkuð til að draga úr líkum á skemmdum í utanvegarakstri. Ljósin eru sömuleiðis alveg ný á afturendanum og sláin yfir númeraplötunni er stærri en áður. Mælaborðið er talsvert breytt og í því er nýr 4,2 tomma skjár sem veitir ökumanni upplýsingar um kerfi bílsins við utanvegarakstur, svo sem veggrip, loftþrýsting dekkja og viðvaranir vegna blinda blettsins.

Hönnunin á mælaborði og innanrými er ágæt og nokkuð klassísk frá Toyota. Það besta sem mér finnst við búnaðinn er að það er hiti í stýrinu. Það er þvílíkur munur í íslenskum vetrarkulda. Takkinn sem kveikir á hitanum í stýrinu er reyndar á undarlegum stað falinn bak við stýrið en eftir smá tíma venst maður því að ýta blindandi á þennan mikilvæga takka. Sama má segja um fleiri takka, m.a. fyrir speglastillingar, þeir eru dálítið faldir. Bíllinn er með lyklalaust aðgengi, Bluetooth-búnaði og iPod tengi sem staðalbúnað. Þá er í honum ljómandi góður margmiðlunarbúnaður, sá nýjasti frá japanska bílaframleiðandanum, Toyota Touch 2, sem vekur lukku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .