Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hyggst bjóða þýskum viðskiptavinum sínum allt að 10.000 evra afslátt ef gamall dísilbíll frá fyrirtækinu er settur upp í nýjan. Samkvæmt frétt BBC mun Volkswagen einnig bjóða afslátt á bilinu 1.000-2.380 evrur ef viðskiptavinur hyggst kaupa rafmagns- eða tvinnbíl frá fyrirtækinu.

Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu eru aðgerðirnar liður í því að bæta loftgæði í þýskum borgum. Áður hafa fyrirtæki á borð við BMW, Daimler og Ford boðið viðskiptavinum sínum að skipta í nýrri og sparneytnari bíla.

Árið 2015 varð Volkswagen uppvís að hafa svindlað á útblástursprófunum dísilbíla sinna. Í mars síðastliðnum játaði fyrirtækið fyrir dómstólum í Bandaríkjunum að hafa svindlað á útblástursprófum og samþykktu að greiða allt að 25 milljarða dollara í skaðabætur.