Þýski bílarisinn Volkswagen AG hefur tilkynnt um frestun á birtingu ársreiknings vegna erfileika við að reikna út áhrif útblásturshneykslisins sem upp komst í lok september sl. Félagið segir að með því að fresta birtingunni er líklegra að hann muni sýna fjárfestum og kröfuhöfum greinargóða sýn á ástand fyrirtækisins.

Upphaflega var áætlað að birta ársreikninginn 10 mars nk. en ekki er búið að að gefa út hvenær reikningurinn verður birtur. Einnig hefur aðalfundi félagsins, sem átti að fara fram þann 21. apríl, verið frestað og hefur nú dagsetning ekki verið ákveðin.

Bílaframleiðandinn hefur tilkynnt að hann ætli sér að birta niðurstöður skýrslu um útblástursmálið í apríl.

Frestunin virðist ekki hafa haft mikil áhrif á hlutabréfaverð Volkswagen en bréf í félaginu hafa hækkað um 2,03% það sem af er degi.