Bílaframleiðandinn Volkswagen gæti þurft að greiða allt að 18 milljarða dollara, eða tæpa 2.300 milljarða króna, í sektir eftir að hafa blekkt umhverfisyfirvöld þar í landi. Volkswagen er sakað um að hafa búið til hugbúnað sem blekkti eftirlitsaðila sem mældu útblástur á eiturefnum.

,,Í einföldu máli innihéldu bílarnir hugbúnað sem slökkvir á útblástursstýringu þegar bílarnir eru í venjulegum akstri en kveikir á henni þegar þeir eru rannsakaðir," sagði Cynthia Giles hjá umhverfiseftirliti Bandaríkjanna.

Volkswagen gæti þurft að borga 37.500 dollara fyrir hvern bíl sem ekki uppfyllti reglugerðir um útblástur. 482.000 Audi og Volkswagen bifreiðar sem seldar voru frá árinu 2008 eru taldar innihalda búnaðinn og ef hver þeirra var í raun ólögleg munu sektirnar alls nema 18 milljörðum dollara.

Talsmaður Volkswagen í Bandaríkjunum sagði að fyrirtækið væri samstarfsaðili í rannsókninni en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið. Ljóst er að þessi meintu svik gætu þó reynst fyrirtækinu afar þungbær.