Jonathan Browning, nýr yfirmaður Volkswagen í Bandaríkjunum, segir tilbúna áætlun um að þrefalda sölu á VW bílum í Bandaríkjunum á næstu átta árum. Þá verði hafin samsetning á Volkswagen í Bandaríkjunum að nýju eftir ríflega 20 ára hlé að því er fram kemur í frétt The Detroit News.

Browning er breskur að uppruna og var áður forstjóri hjá General Motors og einnig hjá Ford Motor Co. og stýrði þar m.a. framleiðslunni á Jaguar. Hann tekur við stöðunni hjá VW af Svíanum Stefan Jacoby sem tilkynnti í júní að hann hygðist yfirgefa VW til að taka við stjórn Volvo fyrir nýja kínverska eigandann Zhejiang Geely Holding Group Co.

Jonathan Browning sagði á blaðamannafundi í Washington að það væri yfirlýst stefna að snúa frá sjö og bráðum átta ára tapi í Norður-Ameríku og hafið væri maraþonhlaup til að viðhalda slíkum viðsnúningi. Volkswagen væri nú að byggja verksmiðju í Chattanooga í Tennessee fyrir 1 milljarð dollara. Þar muni hefjast framleiðsla á glænýjum millistærðar fólksbíl á næsta ári. Þá hafi VW einnig hannað nýjan Jetta sem smíðaður verður fyrir Ameríkumarkað í Mexíkó. Með þessum tveim bílum sagði hann að ætlunin væri að þrefalda söluna og koma henni í 800.000 bíla á árinu 2018. Það yrði jafnframt liður í að gera VW að stærsta bílaframleiðanda heims.