Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur rétt fram hjálparhönd í baráttunni gegn kórónuveirunni vestanhafs, en hjálpin fellst í því að bílaumboð sem selja bíla fyrirtækisins munu lána bíla sem nýttir verða til sendinga á nauðsynjavörum til þeirra sem þurfa. Kórónuveiran hefur leikið lönd víða um heim grátt og er staðan hvað verst í Bandaríkjunum. Reuters greinir frá.

Volkswagen kveðst hafa beðið bílaumboðin um að nýta bifreiðar, sem vanalega eru lánaðar til viðskiptavina meðan bíll þeirra er í viðgerð, í þessi sendingaverkefni.

Lánsbílarnir gætu þá að sögn Volkswagen nýst til að keyra mat í „matarbanka", til að sendast með grímur og hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk og til að skutla nauðsynjavörum til þeirra sem ekki mega fara út úr húsi vegna veirunnar. Bílaumboðin muni að sjálfsögðu ekki krefjast greiðslu fyrir þessi útlán.