Volkswagen hefur samið um að vera sektað um 86 milljónir bandaríkjadollara af neytendaeftirlitinu í Ástralíu, eða sem nemur rúmlega 10,6 milljörðum króna, vegna útblásturshneykslisins, sem fyrst var sagt frá árið 2015 og er löngu orðið víðfrægt. Er þetta stærsta slíka sekt sem fyrirtæki hefur þurft að greiða vegna brota á átrölskum neytendalögum. BBC greinir frá þessu.

Frá því að í ljós kom að bílaframleiðandinn hafi verið að svindla á útblástursprófunum, hafa lögsóknir á hendur honum hrúgast inn.

Þetta er þó ekki eina mál sem áströlsk yfirvöld hafa rekið gegn Volkswagen. Til skoðunar eru tæplega 50 þúsund neytendalán sem fyrirtækið veitti á árunum 2013 til 2016. Nefnd á vegum ástralska ríkisins, sem hefur séð um rannsókn málsins, telur að Volkswagen hafi flaskað á að kanna nægilega útgjöld þeirra sem sóttu um lánin til að kanna hvort lántaki gæti ráðið við slíkt lán.