*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Erlent 20. maí 2016 13:48

Volkswagen semur um launahækkanir

Starfsfólk Volkswagen í Evrópu mun hljóta 4,8% launahækkun á næsta ári.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Bifreiðaframleiðandinn Volkswagen hefur nú samið við iðnverkalýðssamtök Þýskaland um ný launakjör handa launafólki sem starfar hjá félaginu. Ríflega 120 þúsund manns munu hljóta launahækkunina.

Undirritun kjarasamningsins bætist þá ofan á allan þann kostnað sem hefur hlaðist á fyrirtækið eftir að upp komst að svindlbúnaður í aksturstölvum bifreiða félagsins hefði gefið betri niðurstöður í útblástursprófunum en ef heiðarlega hefði verið staðið að málum.

Fyrirtækið þarf að innkalla meira en 11 milljón bifreiðar vegna svindlbúnaðarins, en tap upp á rúmlega 18 milljarða Bandaríkjadala var skráð á rekstur síðasta árs. Það eru um það bil 2.178 milljarðar íslenskra króna.

Starfsfólk bifreiðarisans hefur staðið fast á því að mistök stjórnenda fyrirtækisins ættu ekki að koma niður á launakjörum verkafólksins, og létu því ekki undan í kjaraviðræðunum. Yfir 3,8 milljónir verkafólks fá launahækkanir á næstunni í kjarasamningabylgju yfir öllu Þýskalandi.

Hagfræðingar telja kjarasamningana góðs eðlis. Hærri laun gætu leitt til aukinnar verðbólgu, sem er að þeirra mati stórþörf á innan Evrusvæðisins. Verðhjöðnun var á fyrsta ársfjórðungi 2016, bæði í Þýskalandi og á stærra Evrusvæðinu.