Volkswagen tapaði 570 milljörðum króna árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Helsta ástæða tapsins er sú að svindlbúnaður var notaður í bifreiðum frá fyrirtækinu til þess að falsa niðurstöður í útblástursprófunum.

Fyrirtækið greiddi himinháa sekt fyrir svindlið, eða um 16,2 milljarða evra - 2.268 milljarða íslenskra króna - í sektir og dómsmál.

Ekki er öllu lokið í málinu en Volkswagen hefur nú nýlokið samningum við bandarísk yfirvöld.

Þar í landi voru um 600 þúsund bílar útbúnir svindlforritinu afdrifaríka en bifreiðaframleiðandinn hefur samþykkt að gera við eða kaupa til baka nánast 500 þúsund þessara bíla.

Greiningarfélagið Kelley Blue Brook hefur metið kostnaðinn við slík endurkaup á um 7 milljarða Bandaríkjadala - 868 milljarða íslenskra króna til viðbótar við tap síðasta árs.