54% allra seldra bíla í Noregi í fyrra voru rafbílar, en þar af var Audi e-tron algengasta bíltegundin með 9.227 seld eintök, vel yfir 7.770 eintökum hins vinsæla Tesla Model 3. CNN segir frá .

Volkswagen ID.3 var svo aðeins nokkrum eintökum á eftir Tesla með 7.754 eintök, en þar sem Audi er hluti Volkswagen-samsteypunnar var hún vel yfir Tesla heilt yfir.

Noregur ber höfuð og herðar yfir önnur lönd þegar kemur að rafbílavæðingu, og hefur gert síðustu ár. Miklum ívilnunum er beitt til að hvetja kaupendur til að velja rafbíla, og stefnt er að því að árið 2025 verði allir nýir fólks- og sendibílar vistvænir.

Þökk sé ívilnununum eru rafbílar almennt ódýrari en sambærilegir sprengihreyfilsbílar. Hlutfallið var enn hærra í desember, en þá voru um tveir af hverjum þremur nýjum bílum rafknúnir.

Þótt Ísland eigi langt í land með að ná Noregi teljumst við einnig mjög ofarlega á heimsvísu hvað rafbílavæðinguna varðar, en fjórði hver nýskráði bíll hér var rafbíll í fyrra , sem var þreföldun þess hlutfalls milli ára.