Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen greindi frá því í gær að starfsemi félagsins í Bandaríkjunum muni koma til með að heita „Voltswagen of America". Var þetta sagt vera hluti af framtíðaráformum fyrirtækisins um að einblína á framleiðslu rafbíla. Reuters greindi frá þessu en nú hefur sami miðill greint frá því að samkvæmt sínum heimildum sé um að ræða markaðsbrellu (e. marketing stunt), til þess að vekja frekari athygli á fyrrnefndri áherslu á rafbílaframleiðslu.

Sagt var að félagið stefndi á að nýja nafnið yrði tekið upp vestanhafs í maí næstkomandi, en upphaflega komst upp um málið þegar drög að nýju merki og nafni félagsins á Bandaríkjamarkaði var fyrir slysni birt á vefsíðu fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Í kjölfarið sendi félagið frá sér fyrrnefnda tilkynningu, sem nú er sögð markaðsbrella.

„Þó að við séum að skipta K-inu í nafninu út fyrir T, breytir það ekki skuldbindingu vörumerkisins gagnvart neytendum um að framleiða háklassa bifreiðar fyrir ökumenn og almenning um víða veröld," sagði Scott Keogh, forstjóri Volkswagen í Bandaríkjunum, í tilkynningu þar sem greint var frá þessum fyrirætlunum, sem þó virðast ekki á rökum reistar.