Gengi hlutabréfa í Volvo hækkaði í gærmorgun, eftir að sænski bílaframleiðandinn tilkynnti að sala á vörubifreiðum hefði aukist umtalsvert í Evrópu og Bandaríkjunum. Sala samstæðunnar jókst um 15% á fyrsta ársfjórðungi og nam 60 milljörðum sænskra króna, eða 595 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður jókst um 23% og var 4 milljarðar sænskra króna, eða 40 milljarðar íslenskra.

Eftirspurn í Evrópu jókst að mestu vegna tveggja þátta -- áhuga á nýjum árgerðum annars vegar og hins vegar vegna þess að neytendur flýttu sér að panta eldri árgerðir áður en strangar reglur um útblástur taka gildi í október.

Í Bandaríkjunum jókst sala um 30% og Volvo hefur nú þegar selt nærri alla áætlaða framleiðslu ársins 2006. Á móti kemur að búist er við að hægi á pöntunum þar til neytendur geta keypt nýjar árgerðir sem uppfylla kröfur nýrra útblástursreglna, en þær taka gildi í janúar.

Volvo hefur hækkað spá sína um sölu á þungum vörubílum í Evrópu á árinu um 10.000 bíla, upp í 270.000-280.000. Í Bandaríkjunum er hækkunin svipuð og hljóðar spáin upp á 330.000-340.000 bíla.

Sala á vörubifreiðum í Miðausturlöndum minnkaði hins vegar.

Biðin eftir nýjum árgerðum olli aðeins takmarkaðri "truflun" á fyrsta ársfjórðungi, segir í tilkynningu Volvo, en fyrirtækið varar þó við að hún geti valdið álagi á starfsemina það sem eftir er ári.

Hlutabréf í Volvo höfðu hækkað um 6,5% í kauphöllinni í Stokkhólmi um miðjan morgun á mánudag.