Sænski bílaframleiðandinn Volvo Cars hyggst tilkynna um frumútboð á næstu dögum. Fyrirtækið mun sækjast eftir tæplega 25 milljarða dala verðmati í útboðinu. Financial Times greinir frá.

Um 10 milljarðar dala af þeirri fjárhæð stafar af helmingshlut Volvo í rafbílaframleiðandanum Polestar, sem er sjálfur á leiðinni á markað í gegnum öfugan samruna við sérhæft yfirtökufélag (e. spac). Polestar mun fá um 20 milljarða dala verðmat í viðskiptunum. Leikarinn Leonardo DiCaprio er meðal fjárfesta Polestar.

Fyrir vikið verður Volvo samstæðan, að Polestar undanskildu, verðlagt á 15 milljarða dala. Til samanburðar nemur markaðsvirði Daimler, móðurfélag Mecerdes-Benz, 95 milljörðum dala í dag og markaðsvirði BMW er um 54 milljarðar dala.

Volvo Cars er í eigu kínverska bílafyrirtækisins Geely sem keypti sænska bílaframleiðandann frá Ford fyrir 1,8 milljarða dala árið 2010. Geely hætti við skráningu Volvo árið 2018 vegna ótta um að viðskiptastríð á milli Bandaríkjanna og Kína gæti haft áhrif á eftirspurn eftir hlutabréfum Volvo. Á þeim tíma hafði Geely vonast til að geta fengið 30 milljarða dala fyrir Volvo samstæðuna.

Rekstur Volvo hefur gengið vel á undanförnum mánuðum og uppgjör bílaframleiðandans fyrir fyrri árshelming var það besta í sögu félagsins, þrátt fyrir skort á örgjörvum sem hefur hamlað bílaiðnaðinum á síðustu mánuðum.