Sænska ríkissjónvarpið hefur greint frá því að báðir sænsku bílaframleiðendurnir, Volvo og Saab, séu nú á barmi gjaldþrots.

Þessi frétt ætti þó að koma fæstum á óvart. Jafnvel áður en alheimskreppan skall á af fullum þunga voru amerísku bílrisarnir Ford og GM í stökustu vandræðum með þessi merki sín.

Nýjustu sölutölur frá Saab og Volvo eru ekki skemmtilesning. Í september hrundi sala á Saab í Evrópu um næstum þriðjung miðað við sama mánuð í fyrra.

Samdrátturinn hjá Volvo fyrir sama tímabil var 14%.

Efnahagssamdrátturinn og meðfylgjandi lánakrísa hefur gert stöðu Ford og GM enn viðkvæmari og nú hefur Standard & Poor’s sett báða framleiðendur á lista yfir fyrirtæki með afar lágt lánshæfismat. Það gerir þeim enn erfiðara fyrir en ella að fjármagna rekstur merkjanna.

Í viðtali í fréttaþættinum Rapport í sænska ríkissjónvarpinu sagði Andreas Zsiga hjá Standard & Poor’s að hættan á að Ford og GM verði hreinlega gjaldþrota hafi aukist og til greina komi að lánshæfismatið lækki enn frekar.