Greiningardeild Kaupings segist eiga von á fleiri slæmum fréttum ytra vegna undirmálslána (e. sub prime loans). Hins vegar bendi allt til þess að sjálf lausafjárkrísan hafi gengið yfir þótt áfram megi búast við einhverjum óstöðugleika og háu áhættuálagi.

"Markaðir með hlutabréf og gjaldeyri urðu fyrir mestum áhrifum af krísunni hérlendis og svo virðist sem fylgni á milli þeirra hafi farið vaxandi. Þrátt fyrir undanfarna ókyrrð telur Greiningardeild að gengi krónunnar haldist tiltölulega sterkt og er spá deildarinnar um gengi hlutabréfa frá því í júlí óbreytt," segir Greiningardeildin.

"Þegar svo snögg og áberandi gengislækkun á sér stað leiðir það iðulega til verðhækkunarskriðu hérlendis, þegar bæði birgjar og verslanir velta ýmsum kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Á móti kemur að horfur á fasteignamarkaði hafa versnað. Af þeim sökum telur Greiningardeildar að verðbólguhorfur hafi versnað til skamms tíma en eilítið batnað þegar litið er lengra fram á veginn," segir Greiningardeildin.

Það er mat Greiningardeildar að Seðlabanki Íslands þurfi að uppfæra spár sínar fyrir bæði hagvöxt og verðbólgu til hækkunar. Greiningardeild býst ekki við vaxtahækkun af þeim sökum en þess í stað mun vaxtalækkunarferlinu verða skotið enn lengur á frest eða fram í maí á næsta ári.