Tyrkland hyggst auka verulega ríkisútgjöld á næstu fimm árum, sem ætti að ýta enn frekar undir verðbólguþrýsting í landinu og knýja seðlabankann til að hækka stýrivexti.

Í fimm ára efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt um helgina kemur fram að hún vænti þess að afgangur á ríkisfjárlögum muni minnka um helming fyrir árið 2012.

Ákvörðun stjórnvalda kemur á óvart og sérfræðingar segja hana boða slæm tíðindi fyrir hagkerfi landsins. Verðbólga á ársgrundvelli í apríl mældist 9,7%.

Í kjölfarið tilkynnti Seðlabanki Tyrklands að engar líkur væru á því að markmið bankans um 4% verðbólgu myndu nást á næstu tveimur árum.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Tolga Ediz, hagfræðingi hjá Lehman Brothers, að tyrkneska hagkerfið sé viðkvæmara um þessar mundir heldur en það hafi verið árið 2006. Á því ári féll gengi hlutabréfa og tyrkneska gjaldmiðilsins í verði um 30% á aðeins einum mánuði vegna ótta fjárfesta um horfur í hagkerfinu.

Fjármálaráðherrann, Kemal Unakitan, segir Tyrkland stefna að 2,4% afgangi á ríkisfjárlögum árið 2012 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Á þessu ári myndi hins vegar afgangurinn nema 3,5%, en færi síðan smám saman minnkandi næstu árin.

Áform stjórnvalda að auka ríkisútgjöld gengur í berhögg við peningamálastefnu seðlabankans. Durmus Yilmaz seðlabankastjóri sagði á sunnudaginn að stefna hins opinbera í ríkisfjármálum væri mikilvægasti þátturinn í baráttunni gegn verðbólgu.

„Ef það verður slakað á henni, verður í staðinn þörf á aðhaldsmeiri peningastefnu," sagði Yilmaz.

Seðlabankinn mun tilkynna um næstu stýrivaxtaákvörðun sína 15. maí næstkomandi. Hagfræðingar spá því að vextir verði hækkaðir úr 15,25% -- á meðal OECD-ríkja er aðeins Ísland með hærri stýrivexti -- í 15,75%.

Fleiri stýrivaxtahækkanir munu væntanlega fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum.