„Á meðan þetta ástand varir þurfum við að veita lausafjárfyrirgreiðslu. Það mun ríkissjóður gera eftir öllum mögulegum leiðum en þetta eru ekki auðveldar ákvarðanir sem þingið þarf að taka,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í umræðu á þinginu nú rétt í þessu um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs.

Næstkomandi mánudag, þann 15. mars, eru skemmri skil virðisaukaskatts, veiðigjald, olíugjald og vörugjöld af ökutækjum innfluttum í atvinnuskyni á gjalddaga sem og eindagar á staðgreiðslu og tryggingagjaldi vegna febrúar og fjársýsluskatti vegna febrúar. Alls eru þar tugir milljarða sem ríkið á von í kassann þann dag.

„Á að veita hlutfallslegan afslátt? Á að setja þak á það sem má fresta greiðslum á? Þetta eru ákvarðanir sem við erum að taka til skoðunar í dag og leggja fyrir þingið á morgun á þingfundi til umræðu og vonandi afgreiðslu. Dæmi um stóra ákvörðun sem við höfum ekki mikinn tíma til að hugsa um en verðum að bregðast við,“ sagði Bjarni.

Ráðherrann ítrekaði það að vandinn sem blasti við væri tvíþættur, annars vegar skammtíma efnahagsvandi en hins vegar heilbrigðisvandi. Sá vandi væri í fyrsta sæti.

„Við stöndum frammi fyrir þeirri ógn að sú staða geti skapast, ef við náum ekki að stilla strengi okkar, að þolmörk heilbrigðiskerfisins ráði ekki við stöðuna. Það væri það versta sem gæti gerst. Slíkt er undir okkur sjálfum komið og við höfum séð að með markvissum aðgerðum er hægt að hafa áhrif á útbreiðsluhraða. Þetta er grundvallaratriði sem verður að vera fremst í forgangsröðinni,“ sagði Bjarni.

Hann hrósaði almannavörnum og öðrum sem hafa staðið í brúnni í þeirri baráttu fyrir þeirra framgöngu hingað til. Aðrar þjóðir hefðu ekki tekið málið jafn föstum tökum og væru nú að súpa seyðið af því.

„Við höfum notað undanfarin ár til að gera upp skuldir, bæta stöðu okkar gagnvart útlöndum, safna gjaldeyrisforða og í mörg ár skilað miklum afgangi. Allt þetta kemur okkur mjög til góða þegar við stöndum fyrir krefjandi aðstæðum,“ segir Bjarni.

„Á árinu 2020 erum við að sjá fram á skell. Við trúum að þetta verði tímabundið ástand en það getur enginn sagt eða gefið loforð um að ferðafólk muni koma hingað aftur um leið og ástandið skánar. Við þurfum að hjálpa fyrirtækjum í gegnum erfiða tíma,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði enn fremur að engar ástæður væru til annars en að ætla að bjartari tímar væru framundan eftir að þetta ástand rennur sitt skeið. Það sé hins vegar ekki gott að segja hve langan tíma það muni taka. Ríkisstjórnin muni halda þingi og þjóð upplýstri eins og hægt er og senda þangað þær bestu upplýsingar sem hún hafi. Ástandið núna sé hins vegar þannig að sviðsmyndirnar breytist frá degi til dags, upplýsingar frá síðustu viku séu orðnar úreltar í dag.