Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX á Íslandi, segist eiga von á að fjöldi nýskráðra félaga á íslenskum hlutabréfamarkaði næsta eitt og hálfa árið eigi eftir að verða sá mesti frá árinu 1999. Það ár voru átta fyrirtæki nýskráð á Verðbréfaþing, eins og markaðurinn hét þá.

„Ég met markaðinn þannig eins og staðan er í dag að skráðum félögum eigi eftir að fjölga á næstunni og reikna með að fjöldi nýskráðra verði sá mesti frá 1999,“ segir Páll í samtali við Viðskiptablaðið.

Fjöldi skráðra félaga í íslenskri kauphöll náði einmitt hámarki árin 1999 og 2000 en þá voru alls 75 fyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað. Þeim fækkaði svo jafnt og þétt til ársins 2005, þegar 26 félög voru skráð, þegar þeim tók að fjölga lítillega á ný en fækkaði svo mikið við hrun bankakerfisins árið 2008.

Nú eru 11 fyrirtæki skráð í kauphöllinni.