Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í upphafi þingfundar á Alþingi í dag að orkufrumvarp iðnaðarráðherra myndi verða afgreitt úr þingflokki sjálfstæðismanna í þessari eða næstu viku.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu er nokkuð síðan þingflokkur Samfylkingarinnar afgreiddi frumvarpið fyrir sitt leyti.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, spurðist fyrir um frumvarpið í upphafi þingfundar. Arnbjörg svaraði því til að verið væri að skoða frumvarpið mjög vandlega í þingflokknum. "Þingmenn hafa eðlilega mikinn áhuga á að kynna sér það mál áður en það kemur inn í þingið," sagði hún.

Harmar ekki misgóð stjórnarfrumvörp

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagðist ekki harma þótt misgóð stjórnarfrumvörp litu ekki dagsins ljós. Á hinn bóginn væri það sérkennilegt, sagði hann, að aðilar úti í bæ væru að álykta um frumvarpið áður en þingheimur allur hefði fengið það í hendur. Vísaði hann þar til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sem fagnaði efni frumvarpsins í bókun sinni í síðustu viku.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að þingflokkurinn hefði sérstaklega óskað eftir því að fá frumvarpið til kynningar. Ekki hefði hins vegar verið hægt að tímasetja þá kynningu vegna þess að frumvarpið sæti fast í þingflokki sjálfstæðismanna.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri ekkert óeðlilegt að þingflokkur sjálfstæðismanna tæki sér góðan tíma til að fara yfir málið í ljósi þess að frumvarpið fjallaði um eignarhald á auðlindum.