Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti í síðasta mánuði úr 5,75% í 5,25% og var þetta fyrsta vaxtalækkun bankans síðan í desember 2014. Stýrivextir höfðu staðið í stað frá því í nóvember í fyrra vegna væntanlegs verðbólguþrýstings í kjölfar launahækkana og framleiðsluspennu í hagkerfinu.

Verðbólga hefur hins vegar haldist mjög lág hér á landi, meðal annars vegna lækkandi hrávöruverðs og lágrar verðbólgu erlendis, og taldi Seðlabankinn því rétt að lækka vexti. Sérfræðingar á markaði telja að Seðlabankinn hafi að undanförnu sýnt of mikið aðhald og því hafi vaxtalækkun verið eðlilegt skref. Búast þeir allt eins við frekari vaxtalækkunum á næstunni.

Allt öðruvísi hagvöxtur

„Við erum að horfa upp á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum, lágt atvinnuleysi og kröftugan hagvöxt og ef um klassíska íslenska hagsveiflu væri að ræða myndum við almennt ekki vera að gera ráð fyrir lækkun stýrivaxta á þessum tímapunkti. Hins vegar erum við um þessar stundir að upplifa hagsveiflu af allt öðrum toga. Hagvöxtur grundvallast á útflutningsatvinnuvegunum með miklum viðskiptaafgangi sem þýðir það að þetta er heilbrigðasti hagvöxtur sem við höfum séð á Íslandi í langan tíma,“ segir Steingrímur Arnar Finnsson, forstöðumaður markaða hjá Fossum. Bætir hann því við að síðustu tvær uppsveiflur efnahagslífsins hafi að miklu leyti verið byggðar á skuldsettri einkaneyslu og erlendum lántökum með viðvarandi við- skiptahalla. Nú sé hins vegar allt annað uppi á teningnum.

„Skuldsetning heimila hefur ekki verið lægri í 20-30 ár, hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er í kringum núll, skuldsetning fyrirtækja er lág og ríkissjóður á nettó grunni er nær óskuldsettur ef stöðugleikaframlagið sem samið var um við slitabú föllnu bankanna er tekið með í reikninginn. Gjaldeyrisvaraforðinn er einnig gríðarlega stór þannig að þetta er gjörólík staða frá því sem við höfum venjulega séð á þessum tímapunkti í týpískri íslenskri hagsveiflu. Því finnst mér þetta vera mjög skynsamleg skref hjá Seðlabankanum.“

Telur hann að Seðlabankinn muni halda vaxtalækkunarferlinu áfram og lækka vexti um 50-75 punkta á næstu missirum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .